Fed Cup 2019 – þriðji leikur

Ísland tapaði þriðja og síðasta leiknum sínum í riðlakeppninni í gær 2-1 í hörkuleik gegn Möltu.

Anna Soffía Grönholm spilaði nr. 2 fyrir Ísland í fyrsta leik dagsins gegn Mariu Farrugia Sacco. Anna lenti 3-1 undir í fyrsta setti en þá fann hún taktinn og steig hún varla feilspor eftir það og valtaði yfir þá Maltnesku 6-3 6-0 og innsiglaði þannig fyrsta sigur Íslands á heimsmeistaramótinu í liðakeppni 2019. Glæsilegur sigur hjá Önnu í alla staði.

Íris Staub spilaði nr. 1 fyrir Ísland gegn Elaine Genovese sem var uppá sitt besta nr. 902 í heiminum fyrir nokkrum árum. Sú Maltenska vann leikinn 6-2 6-0 en Íris átti samt flottan leik þar sem hún vann 31 stig á móti 58 en því miður þá féllu lotustigin ekki með henni í dag.

Staðan var þá 1-1 í leikjum eftir einliðaleikina og þurfti tvíliðaleikurinn því að skera úr um sigurvegara þessarar viðureignar. Í tvíliðaleiknum spiluðu Íris Staub og Anna Soffía gegn Elaine Genovese og Mariu Sacco. Þær Maltnesku byrjuðu mun betur og unnu fyrsta settið 6-3 og voru komnar 3-1 yfir í öðru setti þegar þær íslensku ákváðu að setja í næsta gír.

Með glæsilegri spilamennsku tókst þeim að vinna annað settið 6-4 og komast svo 5-4 yfir í því þriðja og með uppgjöf. Því miður tókst þeim ekki að nýta sénsinn og tókst þeim Maltnesku að snúa blaðinu algjörlega við og komast 6-5 og 0-40 yfir.

Á þessum tímapunkti var stór hópur áhorfenda farinn að fylgjast með leiknum þar sem um var að ræða síðasta leik dagsins, gríðarlega spennu og mikið í húfi fyrir bæði lið. Á einhvern undraverðan hátt tekst íslensku stelpunum þó að bjarga öllum þremur leikboltunum og vinna lotuna við mikil fagnaðarlæti áhorfenda.

Oddalota þriðja settsins fór af stað með miklum látum þar sem þær Maltnesku spila virkilega vel og komast 6-3 yfir og því aftur með þrjá leikbolta í röð. Þarna hefði maður haldið að leikurinn væri búinn en einhvern veginn tókst íslenska liðinu aftur að snúa blaðinu við, bjarga öllum þremur leikboltunum og komast 6-7 yfir. Þarna var stóri sénsinn en þá tekur við mjög langt stig sem því miður endar í netinu hjá íslenska liðinu. Í stöðunni 7-7 á Anna virkilega góða slice uppgjöf útá forhöndina hjá Mariu Sacco en á einhvern ótrúlegan hátt tekst henni að þruma boltanum niður línuna fram hjá Írisi. Þær Maltnesku taka svo lokarallýið og innsigluðu þar með 2-1 sigur Maltneska liðsins. Hreint út sagt magnaður leikur í alla staði og ekki hægt annað en að hrósa báðum liðum fyrir æðislega skemmtun og frábæran tennisleik.

Selma Dagmar Óskarsdóttir og Ingibjörg Anna Hjartardóttir voru ónotaðir varamenn.

Á laugardaginn mun Ísland leika síðasta leikinn sinn í umspili gegn Algeríu.