Tennisspilarar ársins 2017!

Tennissamband Ísland hefur valið tennismann ársins og tenniskonu ársins 2017.

Atkvæðisrétt hafa allir í stjórn og varastjórn TSÍ ásamt starfandi landsliðsþjálfurum.

Tennismaður ársins 2017 er Birkir Gunnarsson

Tenniskona ársins 2017 er Hera Björk Brynjarsdóttir

 

Birkir Gunnarsson

Birkir Gunnarsson hefur verið á meðal fremstu tennisleikara Íslands um árabil. Birkir fékk fullan skólastyrk við Graceland University í Iowa og spilaði þar fyrsta námsárið sitt í Bandaríkjunum en flutti sig svo yfir til Auburn University í Montgommery í Alabama, þar sem hann hefur leikið tennis síðustu þrjú árin. Þaðan lauk hann BA prófi í viðskiptafræði síðastliðið vor. Auburn University keppir í bandarísku NCAA háskóladeildinni í suð-austurhluta Bandaríkjanna þar sem samkeppnin er hvað hörðust. Á síðasta keppnistímabili spilaði Birkir 17 einliðaleiki fyrir skólann og sigraði í 13 þeirra. Á árum sínum í Bandaríkjunum fékk Birkir fjölda viðurkenninga fyrir góðan árangur og nú í vor var hann valinn Most Improved Player 2017 hjá skólanum.

Birkir sigraði Íslandsmótið í tennis innanhúss 2017 og varð nr. 2 á Íslandsmótinu utanhúss. Hann var fyrirliði landsliðs karla sem tók þátt í Davis Cup í Sozopolo, Búlgaríu. Birkir sigraði þar tvo einliðaleiki og tapaði tveimur. Hann keppti einnig fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum 2017 í San Marino.

Undanfarin misseri hefur Birkir dvalið við æfingar í Los Angeles.

 

 

Hera Björk Brynjarsdóttir

Hera Björk hefur verið meðal okkar bestu tenniskvenna um árabil. Hún hefur átt gott ár og auk þess að hafa unnið Meistaramótið í lok árs 2016 þá vann hún Íslandsmótið innanhúss 2017 og einnig fyrsta og annað Stórmót TSÍ á árinu. Í tvíliðaleik vann hún Íslandsmeistaratitil utanhúss ásamt meðspilara sínum.

Hera Björk var fyrirliði landsliðs kvenna sem fór á FED Cup í sumar til Chisnau, Moldavíu. Liðið stóð sig vel með hennar stuðningi og vann Hera ásamt meðspilara sínum einn tvíliðaleik gegn Kenýa. Hún keppti einnig fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum 2017 í San Marino.

Hera Björk kláraði Verzlunarskóla Íslands í vor og flutti stuttu síðar til Frankfurt þar sem hún hefur verið að æfa stíft í SAFO Tennisclub. Hera Björk hefur nú hlotið fullan skólastyrk í Valdosta State University í Georgíu, Bandaríkjunum og mun hún flytja út í janúar.