Sæl verið þið,
Ég ætla að deila með ykkur minni reynslu frá ITF Level 1 þjálfaranámskeiðinu sem ég sótti í Bangkok dagana 30 október – 10 nóvember. Við vorum tuttugu sem tókum þátt og í þetta skiptið voru bara karlar á námskeiðinu en þetta námskeið er opið fyrir bæði kynin. Það voru tólf frá Tælandi og átta sem komu erlendis frá. Fyrir utan mig voru menn frá Nýja Sjálandi, Myanmar, Cambodia, Frakklandi, Bangladesh og Íran.
Námskeiðið var haldið í Lawn National Tennis Center Thailand og gistum við einnig þar. Öll aðstaða var til fyrirmyndar bæði úti á völlum og svo inn í kennslustofu. Kennari okkar hét Suresh Menon frá Malasíu og hefur hann starfað í yfir tuttugu ár hjá ITF og hefur gríðarlega mikla reynslu á þessu sviði. Hann gerði námskeiðið rosalega skemmtilegt og spennandi með sínum skemmtilega karakter. Hann gerði miklar kröfur til okkar allra og er ekki að útskrifa menn ef þeir standast ekki allar kröfur sem hann gerir til þjálfara.
Við fórum einnig í heimsóknir í tvo stóra “international” skóla þar sem við æfðum okkur að kenna krökkum og tókum við einnig próf í þjálfun þar. Svo var einnig tekið skriflegt próf sem menn þurftu að standast. Einnig fengum við gesta-fyrirlesara hann Paradorn Srichaphan, sem er fyrrum atp#9 fyrir u.þ.b. tíu árum. Paradorn er með “tennis academy” fyrir efnilega unglinga á sama stað og námskeiðið var haldið og gerðum við mikið af því að fylgjast með þeim og ræddi ég við Paradorn flest alla daga sem var mjög fróðlegt og skemmtilegt.
Það er mikið talað um tennis í Tælandi, sérstaklega vegna þess hversu rosalegur uppgangur er hér í tennis og þá sérstaklega í unglingaflokkum 10-18 ára. Tæland er að gera mun meira fyrir tennis en flest allar þjóðir í Asíu. Þetta má rekja til nýrrar stjórnar hjá tælenska tennissambandinu sem tók við fyrir nokkrum árum.
Mjög miklu fjármagni er varið í tennis og öllu því sem viðkemur þeirri íþrótt. Hvergi í Asíu eru jafn mörg mót fyrir unglinga eins og er í Tælandi. Svo er verið að setja mikinn kraft í að búa til góða þjálfara, það voru sex ITF þjálfaranámskeið 2017, fjögur level 1 og tvö level 2 og það sama er á döfinni fyrir 2018. Einnig er margt fleira gott að gerast í kringum tennissambandið um þessar mundir.
Ég hef verið í kringum tennis í hátt í 30 ár og hélt ég að ég vissi allt sem viðkæmi því að þjálfa krakka í tennis en sé það núna hvað svona námskeið eru gríðarlega mikilvæg og lærði ég mjög mikið á þessu námskeiði.
Ég vil þakka tennissambandinu heima á Íslandi fyrir þennan frábæra stuðning. Nú er stefnan sett á ITF level 2 á næsta ári.
Það er alveg ljóst að með stærri og betri aðstöðu heima á Íslandi verður þörf á fleirum vel menntuðum þjálfurum til að betri árangur náist.
Takk fyrir mig,
Teitur Ólafur Marshall
Fleiri myndir