Reykjavíkurborg undirbýr útboð á fjórum nýjum tennisvöllum í Fossvogi fyrir tennisdeild Víkings.
„Ég var á fundi með borginni í síðustu viku og það er verið að vinna að útboðinu. Það er talað um að þetta fari í útboð í haust þannig að þetta ætti að vera búið um áramót og tilbúið til æfinga næsta sumar,“ segir Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings.
Vellirnir verða á sama stað og tennisvellirnir sem eru þar fyrir en í sumar stóð til að breyta svæðinu í fótboltavelli þar sem tennisvellirnir voru í svo slæmu ásigkomulagi. „Tennisvellirnir eins og þeir eru núna eru bara ekki boðlegir. Borgin vildi ekki setja pening í þetta þangað til það var tekin ákvörðun um að þeir skyldu fara og þá fannst peningur,“ segir Haraldur.