Tennissamband Íslands átti þrjá fulltrúa á Ólympíuleikjum Æskunnar sem haldinn var í Györ í Ungverjalandi dagana 23-29. júlí. Hátíðin var virkilega vel heppnuð og kepptu 50 Evrópuþjóðir á leikunum. Brynjar Sanne Engilbertsson úr BH kepptí í drengjaflokki og Georgína Athena Erlendsdóttir úr Fjölni og Sofia Sóley Jónasdóttir úr Tennisfélagi Kópavogs í stúlknaflokki.
Brynjar Sanne (BH) keppti við Samuel Toby frá Bretlandi sem er raðaður (ranked) 339 á stigalista Evrópska Tennissambandsins 16 ára og yngri. Brynjar sýndi í leiknum að þrátt fyrir að ekki sé langt síðan hann náði sér af meiðslum þá hefur hann náð nokkrum framförum undanfarið en vantaði þó meiri stöðugleika til að geta verið ógn fyrir Samuel sem er reyndari spilari. Leikurinn fór 6:0, 6:0.
Georgina Athena (Fjölni) keppti við Sinju Violu Kraus frá Austurríki sem er röðuð (ranked) 136 á stigalista EvrópskaTennissambandsins 16 ára og yngri. Georgina hefur einnig náð nokkrum framförum undanfarið en var að keppa sinn fyrsta alþjóðlega leik á erlendri grundu. Sinja Viola er mjög sterkur spilari og átti Georgína ekki mikla möguleika á móti henni og fór leikurinn 6:0, 6:0. Sinja Viola fór síðan alla leið í undanúrslit í þessu móti þar sem hún tapaði fyrir Clöru Tauson frá Danmörku í jöfnum leik en Clara vann mótið.
Sofia Sóley (TFK) keppti við Betinu Tokac frá Tyrklandi sem er röðuð (ranked) 285 á stigalista Evrópska Tennissambandsins 16 ára og yngri. Fyrsta settið var jafnt og átti Sofia Sóley góða möguleika í því setti með góðum sóknarleik en vantaði smá reynslu til að taka það og tapaði því 6:3. Allur leikurinn var nokkuð vel spilaður en Sofia Sóley missti aðeins einbeitinguna í öðru setti og tapaði því 6:2 og fór því leikurinn 6:3, 6:2.
Sofia Sóley og Georgína kepptu einnig í tvíliðaleik á móti stúlkum frá Sviss og fór sá leikur 6:1, 6:2.
Jónas Páll Björnsson var þjálfari og fararstjóri í þessari ferð og skipulagði hann æfingar dagana þegar íslensku krakkarnir voru dottnir út og var tíminn nýttur til hins ítrasta. Krakkarnir kynntust krökkum frá Íslandi í öðrum íþróttum og fengu góða reynslu af því að keppa og æfa með krökkunum frá hinum löndunum. Mótakerfið í þessu móti er þannig að um útsláttarkeppni er að ræða og engin B-keppni (consolation). Að áliti Jónasar þarf að breyta þessu en ferðin var þó ánægjuleg og góð reynsla og voru krakkarnir ánægð með ferðina.
Allt utanumhald af hálfu fararstjóranna Örvars og Garðars og Þóru (sjúkraþjálfara) frá ÍSÍ og gestgjafanna og sjálfboðaliða frá Ungverjalandi var til fyrirmyndar og vill TSÍ þakka fyrir þátttöku sína í verkefninu.