
Íslensku stelpurnar spiluðu þrusu vel á móti írsku stelpunum í tvíliðaleik þrátt fyrir ósigur í 3ja setta hörkuleik
Ísland spilaði sinn fyrsta leik á Fed Cup í dag í Svartfjallalandi á móti geysisterku liði Írlands sem er talið næst sterkasta liðið á mótinu. Stelpurnar stóðu sig mjög vel á móti þeim og létu þær hafa fyrir hlutunum þrátt fyrir 3-0 ósigur.
Anna Soffia Grönholm spilaði fyrsta leikinn fyrir Ísland á móti leikmanni númer 2, Jennifer Timotin, hjá Írlandi. Írska stelpan hafði betur 6-3 og 6-1.
Í öðrum einliðaleiknum spilaði Hera Björk Brynjarsdóttir á móti leikmanni númer 1, Georgia Drummy, hjá Írlandi. Drummy sigraði 6-4 og 6-1.

Tekið var viðtal við Heru Björk eftir leik
Íslensku stelpurnar, Anna Soffia og Hera Björk, komu grimmar til leiks í tvíliðaleiknum á móti Jennifer Timotin og Georgia Drummy. Þær byrjuðu með miklum látum og unnu fyrsta settið 6-4 en töpuðu svo næstu tveimur 1-6, 2-6, þrátt fyrir mjög jafnar og langar lotur.
Í hinni viðureigninni í riðlinum sigraði Makedónía á móti Armeníu 2-1. Ísland mætir Armeníu kl 10 í fyrramálið og má búast við hörku viðureign miðað við spilamennskuna í dag.