
Birkir sigraði örugglega í dag
Birkir Gunnarsson og Hjördís Rósa Guðmundsdóttir byrja vel á fyrsta degi Smáþjóðaleikanna en þau eru bæði komin áfram í 2.umferð í einliðaleik.
Birkir mætti Bradley Callus frá Möltu í 1. umferð í einliðaleik og sigraði hann í tveimur settum, 6-2 og 6-1, í leik sem stóð yfir í rúman klukkutíma. Birkir hafði áður keppt við Callus fyrir tveimur árum á Davis Cup og sigraði hann einnig þá. Birkir keppir næst við kýpverjann Sergios Kyratzia sem er númer 1.456 í heiminum og er talinn vera sjötti sterkasti keppandinn í einliðaleik karla á mótinu.

Hjördís Rósa spilaði mjög vel í dag
Hjördís Rósa Guðmundsdóttir er komin í 2. umferð í einliðaleik í tennis á Smáþjóðaleikunum eftir öruggan sigur gegn Judit Cartana Alana frá Andorra. Hjördís Rósa mætir Kathinka Von Deichmann frá Liechtenstein á morgun kl. 11.45. Von Deichmann er númer 393 í heimi og talinn vera annar sterkasti keppandinn í einliðaleik kvenna á mótinu.

Rafn Kumar féll naumlega úr leik eftir að tapa í oddalotu í öðru setti
Anna Soffia Grönholm og Rafn Kumar Bonifacius töpuðu bæði sínum einliðaleikjum og eru þar með úr leik. Anna Soffia tapaði fyrir Katrinu Sammut frá Möltu 6-2 og 6-3. Rafn Kumar tapaði fyrir Laurent Recouderc frá Andorra 6-0 og 7-6. Recouderc, sem er franskur, hefur verið meðal efstu 125 atvinnumanna í heimi og unnið menn á borð við Tómas Berdych (nr.4 í heiminum) og Jo-Wilfred Tsonga (nr.15 í heiminum).
Í tvíliða kvenna kepptu Anna Soffía og Hjördís Rósa við Sammut og Elaine Genovese frá Möltu. Íslenska stelpurnar töpuðu 6-4 og 6-2. Birkir og Rafn Kumar kepptu við Recouderc og Joan Bautista Poux Gautier frá Andorru og töpuðu 7-5 og 6-4. Ísland er þar með úr leik í bæði tvíliðaleik karla og kvenna.
Á morgun verður fyrsta umferð í tvenndarleik spiluð og munu Hera Björk Brynjarsdóttir og Birkir spila saman á móti Claudine Schaul og Mike Scheidweiler frá Luxembourg.

Anna Soffia náði ekki að landa sigri í dag
Leikir íslenska liðsins á morgun, miðvikudaginn 3.júní eru:
kl. 11:45 – Hjördís Rósa Guðmundsdóttir -Kathinka Von Deichmann, Liechtenstein
kl. 12:45 – Birkir Gunnarsson – Sergios Kyratzis, Kýpur
kl. 15:00 – Birkir Gunnarsson og Hera Björk Brynjarsdóttir – Schaul og Scheidweiler, Lúxemborg