Íslensku keppendurnir féllu allir úr leik á öðrum keppnisdegi Smáþjóðaleikanna í gær.
Hjördís Rósa Guðmundsdóttir féll úr leik í einliðaleik kvenna eftir að hafa tapað fyrir Kathinka Von Deichmann frá Liechtenstein í 2.umferð. Von Deichmann er næststerkasti keppandi mótsins samkvæmt styrkleikalista og í 393. sæti á heimslistanum. Hjördís Rósa átti erfiðan leik gegn Von Deichmann sem sigraði að lokum örugglega 6-0 og 6-2 og er því komin í undanúrslit.
Birkir Gunnarsson féll úr leik í 2.umferð í einliðaleik karla í gær eftir að hafa tapað gegn Sergios Kyratzis frá Kýpur í tveimur settum, 6-4 og 6-4. Kyratzis er raðaður sem sjöundi sterkasti keppandi mótsins og er númer 1.456 á heimslistanum. Birkir byrjaði leikinn vel og var yfir 3-1 í fyrsta setti en þá kom Kyratzis sterkur tilbaka og vann það 6-4. Seinna settið var mjög jafnt en Kyratzis vann það einnig 6-4.
Birkir Gunnarsson og Hera Björk Brynjarsdóttir spiluðu saman í tvenndarleik í fyrstu umferð gegn reyndu pari frá Lúxemborg, Claudine Schaul og Mike Scheidweiler. Þetta var jafnframt fyrsti landsleikur Heru Bjarkar á Smáþjóðaleikunum. Leikurinn for 6-2, 6-1 fyrir Lúxemborg. Bæði Schaul og Scheidweiler hafa oft unnið verðlaun á Smáþjóðaleikunum. Schaul hefur náð mjög góðum árangri sem atvinnumaður í tennis og var á meðal bestu 40 tenniskvenna í heimi árið 2004. Hún hefur sigrað 9 atvinnumót og tvo leikmenn sem hafa verið númer 1 í heiminum, þær Lindsay Davenport og Jelena Jankovic. Scheidweiler náði að vera nr. 280 í heiminum árið 2003 og hefur unnið 15 atvinnumót.
Mótið heldur áfram í Tennishöllinn í Kópavogi í dag og byrjar kl 10. Hægt er að fylgjast með úrslitum mótsins hér og dagskrá hér.