Birkir fer vel af stað í bandarísku háskóladeildinni

Birkir spilar númer eitt fyrir lið sitt Graceland University

Birkir Gunnarsson sem spilar fyrir Graceland University háskólann hefur farið vel af stað í bandarísku ITA háskóladeildinni. Birkir hefur sigrað alla þrjá einliðaleikina sem hann hefur keppt fyrir liðið auk þess hefur hann sigrað einn af tveimur tvíliðaleikjum.

Birki er raðað númer eitt á styrkleikalistanum með liði sínu og mætir því sterkustu andstæðingnum hverju sinni. Graceland University hefur spilað 3þrjá leiki á tímabilinu sem byrjaði nú í febrúar og nær fram í maí. Liðið sigraði fyrstu tvo leikina 5-4 en tapaði svo með sömu tölum gegn Southwest Babtist University.
Í fyrsta leiknum átti liðið í höggi við Truman State University og hafði betur, 5-4. Birkir hafði betur á móti Jake Ohlhausen, 6-3 og 6-1 í einliðaleiknum en hann spilaði ekki tvíliðaleik.

Í öðrum leiknum höfðu Birkir og samherjar hans betur á móti Grinnell College, 5-4. Birkir vann báða sína leiki. Hann sigraði í einliðaleik á móti Elliott Czarnecki, 6-2 og 6-1 og í tvíliðaleiknum sigraði hann ásamt meðspilara sínum auðveldlega 8-2.

Í þriðja leiknum mætti liðið Southwest Babtist University og tapaði naumlega 4-5. Birkir sigraði sinn einliðaleik í jöfnum og spennandi leik sem fór í 3 sett 1-6, 6-3 og 12-10 á móti Kristof Kinal. Birkir tapaði svo naumlega tvíliðaleiknum ásamt meðspilara sínum gegn sterkasta tvíliðaleikspari Southwest Babtist 9-8.

Birkir og félagar í Graceland University spila tvo leiki næstu helgi, fyrst gegn Drury University og svo á móti Oklahoma Babtist University. Hægt er að fylgjast með úrslitum og næstu leikjum Graceland University hér.