Hjördís Rósa og Birkir kjörin tenniskona og tennismaður ársins

Birkir og Hjördís Rósa tennismaður og tenniskona ársins 2013

Hjördís Rósa Guðmundsdóttir og Birkir Gunnarsson hafa verið valin tenniskona og tennismaður ársins af Tennissambandi Íslands fyrir árið 2013.

Hjördís Rósa, sem er einungis 15 ára gömul, er kjörin tenniskona ársins í annað skiptið. Hjördís Rósa hefur átt góðu gengi að fagna á árinu. Hún er tvöfaldur Íslandsmeistari innan- og utanhúss, bæði í einliða- og tvíliðaleik, í meistaraflokki kvenna. Auk þess sem hún varð Íslandsmeistari innan- og utanúss í U-16 og U-18 bæði í einliða- og tvíliðaleik. Hún sigraði á Meistaramótinu 2013 í einliðaleik kvenna þar sem 8 bestu tenniskonur landsins etja kappi á móti hvor annarri. Auk þess sem hún sigraði öll Stórmót TSÍ á árinu sem voru fjögur talsins.

Hjördís Rósa keppti í fyrsta skipti á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg bæði í einliða- og tvíliðaleik. Í tvíliðaleik tókst Hjördísi Rósu ásamt Irisi Staub meðspilara sínum að komast í undanúrslit en þær töpuðu naumlega fyrir liði Lúxemborg í baráttunni um bronsverðlaun. Hún keppti einnig á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar sem haldin var í Hollandi. Hjördís Rósa keppti á móti Viktoríu Kuzmova frá Slóvakíu sem var sett nr. 8 á mótinu. Hjördís Rósa átti ágætan leik en tapaði 6-2 og 6-2. Viktoría endaði svo á því að sigra mótið bæði í einliða- og tvíliðaleik.

Hjördís Rósa er númer 24 á Styrkleikalista Tennissambands Íslands og hefur spilað 257 leiki sem gefa stig á þeim lista.

Birkir, sem er 21 árs gamall, er kjörinn tennismaður ársins annað árið í röð. Hann er tvöfaldur Íslandsmeistari utanhúss, bæði í einliða- og tvíliðaleik, annað árið í röð. Hann sigraði Meistaramótið 2013 í einliðaleik karla þar sem 8 bestu tennismenn landsins keppa á móti hvor öðrum. .Auk þess sigraði hann annað Stórmót TSÍ og öll þau tvíliðaleiksmót sem hann tók þátt í. Birkir varð Stigameistari Íslands 2012 auk þess að ná í fyrsta skipti að verða efstur á Styrkleika Tennissambands Íslands en Arnar Sigurðsson hafði trónað þar á toppnum frá árinu 2007.

Birkir spilaði fyrir landslið Íslands á Davis Cup á Möltu sem er heimsmeistaramót landsliða í tennis. Hann spilaði þar stórt hlutverk fyrir íslenska landsliðið og náði sínum fyrsta sigri í einliðaleik á Davis Cup en hann vann tvo einliðaleiki á mótinu. Birkir keppti einnig á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik en féll úr keppni í fyrstu umferð í öllum flokkum.

Síðla hausts fékk Birkir skólastyrk í Graceland University í Iowa í Ameríku. Þar keppti hann á USA Regional Championships fyrir hönd skólans ásamt 63 öðrum þátttakendum frá ýmsum skólum og sigraði á því móti. Gaf það þátttökurétt á Nationals í Florida þar sem einungis 8 af 512 spilurum í ITN háskóladeildinni keppa. Þar átti Birkir hörkuleik við efsta mann í ITN háskóladeildinni Demi Zmak en varð að játa sig sigraðan 4-6 og 3-6. Birkir ætlar sér að spila í bandarísku háskóladeildinni næstu árin.