Árshátíð Tennissamband Íslands fór fram síðastliðin laugardag og var haldin í Víkinni. Þetta er þriðja árið í röð sem árshátíð TSÍ er haldin og er hún orðin ein af föstum viðburðum tennisársins.
Dagskráin var fjölbreytt og skemmtileg að venju. Boðið var upp á þriggja rétta máltíð. Formaður TSÍ ávarpaði gesti og veitti viðurkenningar. Raj K. Bonifacius var með innleg í Dómarahorninu, spurningakeppni var á milli borða var í umsjón Bjarna spurningaspekúlants og skemmtanastjóra, Tito Puente óperusöngvari tók lagið , karókí og hljómsveitin Maggi, Raj og Íslandsmeistarinn (Bjarni) tóku nokkur vel valin lög.
Formaður TSÍ, Helgi Þór Jónasson, veitti Jónasi Páli Björnssyni framkvæmdastjóra Tennishallarinnar, stjórnar- og nefndarmanni TSÍ til margra ára, gullmerki TSÍ fyrir framlag sitt til tennisíþróttarinnar.
Arnar Sigurðsson úr Tennisfélagi Kópavogs var kjörin tennismaður ársins 2011. Þetta er í fimmtánda skipti sem Arnar hlýtur tilnefninguna og jafnoft hefur hann verið Íslandsmeistari utanhúss eða allt frá árinu 1997. Arnar var tvöfaldur Íslandsmeistari utanhúss á árinu í einliða- og tvíliðaleik.
Hjördís Rósa Guðmundsdóttir úr Badmintonfélagi Hafnafjarðar var kjörin tenniskona ársins. Þetta er í fyrsta skipti sem Hjördís Rósa hlýtur þessa tilnefningu enda er hún einungis 14 ára gömul og ljóst að mikið efni er hér á ferð. Hjördís Rósa náði þeim merka áfanga að vera fjórfaldur íslandsmeistari innanhúss og utanhúss í einliðaleik, þ.e. í U14, U16, U18 og meistaraflokki kvenna. Auk þess var hún Íslandsmeistari utanhúss í tvíliðaleik í U18 og tvöfaldur íslandsmeistari innanhúss í tvíliðaleik, þ.e. í U14 ára og meistaraflokki kvenna.
Hægt er að sjá yfirlit yfir alla sem hafa verið kjörin tennismaður og tenniskona ársins frá upphafi hér.