Arnar Sigurðsson og Iris Staub féllu naumlega úr leik í tvenndarleik á Smáþjóðaleikunum í dag. Þau voru mjög óheppin með dráttinn þar sem þau lentu á móti besta tvenndarparinu í fyrstu umferð. Þau kepptu á móti Claudine Schaul og Mike Vermeer frá Lúxemborg.
Schaul og Vermeer unnu fyrsta settið 6-4. Arnar og Iris komu sterk til baka og unnu næsta settið 6-3. Þriðja settið var súper oddalota sem Arnar og Iris töpuðu 10-4. Gríðarlega mikil vonbrigði fyrir Arnar og Irisi sem voru hársbreidd frá því að komast áfram og hefðu þá að öllum líkindum farið alla leið í úrslitaleikinn þar sem hinir andstæðingarnar voru ekki eins sterkir.
Á morgun spila Iris og Sandra Dís á móti Andorru í tvíliðaleik og með sigri í þeim leik geta þær náð í brons sæti. En þetta verður eflaust erfiður leikur hjá þeim.
Arnar og Birkir mæta Liechtenstein og eiga ágætist möguleika í þeim leik. Ef þeir vinna þann leik komast þeir í undanúrslit og eru öruggir með brons. Arnar og Birkir unnu brons á síðustu Smáþjóðaleikunum í Kýpur árið 2009.