Til minningar um Garðar Inga Jónsson

Fallinn er frá Garðar Ingi Jónsson frumkvöðull tennis á Íslandi. Við fengum leyfi til að birta hér minningargrein sem Jónas Björnsson skrifaði í Morgunblaðið. Stjórn TSÍ sendir öllum aðstandendum samúðarkveðjur.

Í dag kveðjum við Garðar Jónsson tennisáhugamann. Garðar hafði frumkvæðið að byggingu Tennishallarinnar í Kópavogi og stjórnaði byggingu hússins árið 1994. Hann var fyrsti framkvæmdastjóri hallarinnar þar sem nú er Sporthúsið. Garðar kynntist tennis í Lúxemburg þar sem hann starfaði á árum áður og spilaði tennis í tennishöllum. Áður en Garðar byggði húsið var búið að ræða í mörg ár í tennishreyfingunni á Íslandi um nauðsyn þess að koma upp tennishöll á Íslandi. Garðar var stórhuga og ræddi þetta ekki mikið heldur bara keyrði á verkefnið og kom húsinu upp með velvild bæjaryfirvalda í Kópavogi en þá réðu ríkjum meðal annars Sigurður Geirdal og Gunnar Birgisson. Á þessum tíma var eðlilega lítil menning fyrir tennis á Íslandi þô svo að nokkur vakning hafi verið að myndast. Nokkur tennisfélög höfðu nýlega verið stofnuð, Tennisfélag Kópavogs, Tennisklúbbur Víkings, Tennisdeild Þróttar, Tennisdeild Fjölnis og Tennisdeild BH (nú Tennisfélag Hafnarfjarðar) í Hafnarfirði og voru með ágætis sumarstarf yfir hásumarið og eitthvað vetrarstarf í îþróttahúsum. Garðar var hins vegar fyrstur til að koma upp veglegri innanhúss aðstöðu sérstaklega fyrir tennis á Íslandi en í gömlu Tennishöllinni voru sex innanhúss tennisvellir. Þetta breytti mjög miklu fyrir íþróttina og æfa t.d öll fyrrgreind félög ennþá í Kópavogsdalnum á veturna. Sumar hugmyndir Garðars um reksturinn voru á undan sinni samtíð, t.d muna margir eftir því að Garðar dreymdi um og talaði um í fjölmiðlum árið 1993 að hafa sjálfvirkt tölvukerfi sem myndi opna og loka húsið svo áhugafólk gæti þess vegna spilað á nóttunni. Það má segja að sú hugmynd gæti vel átt upp á pallborðið hjá sumum í dag. Rekstur Tennishallarinnar var erfiður í byrjun en vann þó alltaf jafnt og þétt á þó svona rekstur sé enn krefjandi.
Til að gera langa sögu stutta þróuðust málin þannig að Tennishöllinni var breytt í Sporthúsið og hópur tennisáhugamanna byggði aðra Tennishöll átta metra frá þeirri gömlu. Fyrir nokkrum árum fékk Garðar gullmerki TSÍ fyrir sitt stóra og mikilvæga framlag til uppbyggingar íþróttarinnar.
Mér er minnisstætt spjall sem við Garðar áttum þá um þessa þróun. Við vorum hvorugir sáttir á sínum tíma, yfir því hvernig starfssemi gömlu hallarinnar breyttist. Ég held að við höfum verið sammála um það að Sporthúsið og Tennishöllin mynda í dag lýðheilsumiðstöð í Kópavogsdal sem er einstök á landinu og er mörgum mikilvæg.
Garðar gat verið stoltur yfir að hafa hafið þessa vegferð sem við erum ennþá á og fyrir það erum við alltaf þakklát Garðari Jónssyni. Við sendum ættingjum og vinum Garðars innilegar samúðarkveðjur.
F.h Tennishallarinnar,
Jónas Páll Björnsson
Framkvæmdastjóri