Þar sem engin málefni, sem sambandsaðilar óska að tekin verði fyrir á þinginu, bárust innan tiltekins tímaramma, sem skv. lögum TSÍ er minnst 21 degi fyrir þingið, þá var ákveðið að framlengja frestinn um eina viku og þar með birta neðangreint með viku fyrirvara í stað 2ja vikna fyrirvara. Það er skemmst frá því að segja að að ekkert málefni hefur enn borist stjórn þrátt fyrir lengri frest.
Eins stóð til að formaður danska tennisambandsins yrði með fyrirlestur/kynningu á þinginu, en hann staðfesti endanlega í morgun (19.04.2023) að því miður þá kemst hann ekki að þessu sinni.
Stjórn TSÍ mun kynna uppfærða afreksstefnu á þinginu og bera til samþykktar þingsins.
Dagskrá tennisþingsins verður með hefðbundnu sniði.
Störf tennisþings eru:
- Þingsetning.
- Kosnir fastir starfsmenn þingsins.
- Kosnar fastar nefndir: Kjörbréfanefnd. Fjárhagsnefnd. Laga- og leikreglnanefnd. Allsherjarnefnd. Kjörnefnd. Nefndir þessar eru skipaðar þremur mönnum hver.
- Fráfarandi stjórn gefur skýrslu sína og leggur fram fundargerð síðasta ársþings.
- Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga sambandsins til samþykktar.
- Stjórnin leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
- Lagðar fram laga- og leikreglnabreytingar þær sem fram hafa komið.
- Teknar til umræðu aðrar tillögur og önnur mál sem borist hafa til stjórnarinnar.
- Nefndarálit og tillögur og atkvæðagreiðsla um þær.
- Ákveðið gjald ævifélaga.
- Önnur mál.
- Kosning stjórnar, varastjórnar, skoðunarmanna reikninga og fulltrúa á íþróttaþing.
- Þingfundargerðir lesnar og staðfestar.
- Þingslit.
Fái fleiri en þeir, sem kjósa á jafnmörg atkvæði, skal kjósa um þá á ný bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir ræður hlutkesti. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum nema um lagabreytingar sé að ræða; þá þarf 2/3 hluta atkvæða viðstaddra fulltrúa. Þingið getur með 2/3 hluta atkvæða viðstaddra fulltrúa leyft að taka fyrir mál sem komið er fram eftir að dagskrá þingsins var send sambandsaðilum (skv. 5. gr., 3. mgr.). Ársskýrslu TSÍ, sem stjórnin skal leggja fjölritaða fyrir þingið, svo og ágrip af fundargerðum þingsins, skal senda framkvæmdastjórn ÍSÍ og sambandsaðilum TSÍ innan tveggja mánaða frá þingslitum.
Að gefnu tilefni er sérstaklega vakin athygli á neðangreindu er varðar kosningu til stjórnar.
Eins og lög TSÍ kveða á um, sbr. lið 12 hér að ofan, þá verður kosið til stjórnar og varastjórnar.
Í aðalstjórn sitja 5 einstaklingar: Formaður og 4 meðstjórnendur – ath tveir stjórnarmeðlimir eru kjörnir til 2ja ára og tveir til eins árs
Á síðasta þingi voru Aleksandra og Gunnar kjörin til tveggja ára, svo þau sitja áfram (sjálfkjörin) til eins árs.
Það verður því kosið um tvo einstaklinga í stjórn til tveggja ára.
Kosið verður um 3 einstaklinga í varastjórn.
“Samkvæmt leikreglum TSÍ þá er einnig kosið til formanns og í því samhengi þá ítreka ég hér með að ég gef ekki kost á mér til áframhaldandi setu til formanns og ég gef ekki heldur kost á mér í stjórn eða varastjórn.” [Hjörtur Þór Grjetarsson, fráfarandi formaður TSÍ]
Sjáumst þriðjudaginn 25 apríl n.k. í salarkynnum ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, C-salur 3. hæð. Engjavegur 6, 104 Reykjavík, kl. 18:30.