Rafn Kumar Bonifacius úr Hafna- og mjúkboltafélagi Reykjavíkur vann bikarmótið í einliðaleik karla í tennis í dag en leikið var í Tennishöllinni í Kópavogi. Hann hafði betur gegn Vladimir Ristic í tveimur settum en í kvennaflokki vann Hera Björk Brynjarsdóttir úr Fjölni.
Rafn er tvöfaldur Íslandsmeistari í tennis en hann sýndi það og sannaði að hann er besti spilarinn í karlaflokki í dag með því að vinna bikarmótið. Hann hafði betur gegn Vladimir Ristic í tveimur settum en fyrra settinu lauk með 6:4 sigri Rafns og það síðara 6:3.
Anton Magnússon úr TFK og Egill Sigurðsson úr Víking spiluðu um þriðja sætið en þeir æfa og keppa báðir á Spáni en ákváðu að fljúga heim til þess að taka þátt í mótinu. Anton vann eftir þrjú sett en hann tapaði fyrsta settinu 2:6 áður en hann kláraði hin tvö 6:0 og 6:2.
Hera Björk Brynjarsdóttir vann bikarmótið í kvennaflokki. Hún er einnig Íslandsmeistari í tennis en hún vann Önnu Soffíu Grönholm örugglega 6:4 og 6:1. Sofia Sóley Jónasdóttir tók bronsið en hún vann Rán Christer 6:2 og 6:4. Báðar leika fyrir TFK.