ITF Dómaranámskeiði á Íslandi lokið-góður undirbúningur fyrir Smáþjóðaleikana

Þátttakendur á ITF dómaranámskeiðinu

ITF Dómaranámskeið sem Anders Wennberg kenndi á Íslandi lauk síðustu helgi.  Nítján einstaklingar tóku þátt á námskeiðinu og lærðu margt á þessum þremur dögum.

Fyrsta dagur námskeiðsins var haldinn í fundarsal ÍSÍ þar sem fyrsti bóklegi hlutinn var tekinn. Hópurinn sem mætti var mjög fjölbreyttur  – allt frá reyndustu dómurum á Íslandi til einstaklinga sem eru tiltölulega nýjir í tennis. Viðfangsefnið var frekar einfalt til að byrja með og lagði Anders mikla áherslu á að hjálpa fólk að skilja reglurnar betur með því að  skilja rökin á bakvið  ákvarðanir og sagði skemmtilegar sögu frá sinni 30 ára reynslu sem yfirdómari (“referee”).

Anders fer fyrir tennisreglurnar

Á öðrum degi námskeiðsins voru tennisreglurnar útskýrðar frekar og smám saman voru flóknari reglur kynntar ásamt upplýsingum um hvernig “Hawkeye” (myndavél dómgæslutæki) virkar.  Anders vinnur aðallega í dag sem “review official”, þar sem Hawkeye er notað.  Farið var inná uppsetningu dómarateymisins, þ.e. hvernig stóladómari og hinir níu línudómarar vinna saman. Anders fór yfir   handamerkingar og hvernig  samskipti línu- og stóladómara skipta máli.

Þriðji dagur námskeiðsins var haldinn í Tennishöllinni og fengu allir tækifæri til að æfa sig, bæði sem stóla- og línudómari.  Þátttakendur námskeiðsins skiptust á að spila einliðaleiki og dæma sem er mikilvæg æfing til að hjálpa fólki að dæma og til að átta sig á hvernig það er að dæma frá mismunandi stöðum. Eftir hádegi voru fjórir tennisspilarar, Bjarni J. Þórðarson, Daði Sveinsson, Sigurður Arnljótsson og Úlfur Uggason, fengnir til að keppa í einliðaleik og taka þrjú sett á móti hvor öðrum á meðan dómarahópnum var skipt í tvennt til að dæma leikina. Eftir hverja umferð var farið yfir hvernig hver og einn stóð sig og voru miklar framfarir milli umferða.

Liðsandinn er mjög góður innan hópsins og þetta námskeið er frábær undirbúningur fyrir Smáþjóðaleikana sem verða haldnir á Íslandi á næsta ári. Dómarasvið TSÍ hefur stofnað facebook siðu  –  https://www.facebook.com/groups/domarasvid.tsi og hvetur alla til að ganga til liðs við þá:)