ITF Level 1 þjálfaranámskeið haldið í fyrsta sinn á Íslandi

Hópurinn sem tók þátt í ITF level 1 þjálfaranámskeiðinu

Tennissamband Íslands í samvinnu við alþjóða tennissambandið (ITF)  kom af stað sínu fyrsta umfangsmikla þjálfaranámskeiði hér á landi sem viðurkennt er af ITF sem Level 1 CBI (coaching beginners & intermediate). Um er að ræða umfangsmikið 100 klst. námskeið sem skipt er í tvo hluta. Annars vegar Play Tennis, þar sem stuðlað er að mini tennis og byrjendakennslu. Hins vegar er um að ræða svokallað Intermediate námskeið fyrir lengra komna, sem er mjög krefjandi nám.

Námskeiðið er skipulagt af Jóni Axel Jónssyni, yfirþjálfara TFK/TFG/BH, en hann sá um alla kennslu á „Play Tennis“ námskeiðinu. Hrvoje Zmajic, króatískur tennissérfræðingur frá ITF, sá síðan að mestu leyti um alla kennslu á „Intermediate Tennis“ námskeiðinu með aðstoð Jóns Axels.

Með framangreindum hætti er TSÍ í fyrsta sinn að bjóða upp á virkilega öfluga íslenska þjálfaragráðu (1.stigs) sem felur raunar í sér fyrsta skrefið í átt að vel skipulögðu kerfi TSÍ fyrir menntun tennisþjálfara á Íslandi. Markmiðið er síðan að geta boðið upp á framangreinda menntun á nokkurra ára fresti. Í framtíðinni verður hugsanlega annarri gráðu bætt við sem yrði þá byggð upp á ITF Level 2, sem er sérhæfing í þjálfun á „advanced“ spilurum.

Grunnurinn að góðum spilurum og öflugri tennismenningu felst að miklu leyti í vel menntuðum þjálfurum. Með framangreindu hefur TSÍ því tekið stórt stökk í menntun tennisþjálfara hérlendis sem mun án efa skila sér fljótlega.