Jón Axel hefur öðlast hæstu þjálfunargráðu Alþjóða tennissambandsins

Jón Axel ásamt David Ferrer

Jón Axel Jónsson tennisþjálfari lauk á dögunum þriðju og um leið hæstu þjálfunargráðu Alþjóða tennissambandsins (ITF) sem er jafnframt hæsta þjálfunargráða sem hægt er að taka í heiminum.

Jón Axel fékk styrk frá Alþjóða tennissambandinu til þess að fara á þjálfaranámskeiðið sem var haldið á Valencia á Spáni 1.júlí – 11.ágúst síðastliðinn. Einungis átta til tólf manns fá styrkinn ár hvert og er afar sjaldgæft að Íslendingur fái þennan styrk.

Þjálfaranámskeiðið var mjög krefjandi og samanstóð annars vegar af bóklegum hluta og hins vegar af verklegum hluta á tennisvellinum þar sem þjálfaraefnin fylgdust með bestu þjálfurum í heimi og lærðu af þeim.

Í Valencia er ein frægasta tennisakademía í heimi þar sem mikið af bestu og efnilegustu tennisspilurum heims æfir. Þar hitti Jón Axel m.a. David Ferrer (5), Evgeny Donskoy (90), Sara Errani (6), Anabel Medina-Garrigues (100) og fleiri tennisspilara sem eru mjög hátt á heimslistanum sem æfa þarna þegar þau eru ekki að keppa.

Hér er hægt að sjá grein um þjálfaranámskeiðið á heimasíðu Alþjóða tennissambandsins, ITF.