Í dag urðu Rebekka Pétursdóttir úr Tennisdeild Fjölnis og Sandra Dís Kristjánsdóttir úr Tennisfélagi Kópavogs Íslandsmeistarar í tvíliðaleik kvenna. Þetta er í þriðja skipti sem Rebekka verður Íslandsmeistari utanhúss í tvíliðaleik en fyrsti tvíliðaleikstitill Söndru Dísar.
Þrjú lið voru skráð til leiks í tvíliðaleik kvenna og því kepptu allir við alla.
Rebekka og Sandra Dís sigruðu Rögnu Sigurðardóttir og Sigríði Sigurðardóttir 6-0 og 6-1. Carola Frank og Anna Podolskaia úr Tennisdeild Fjölnis sigruðu einnig Rögnu og Sigríði 6-2 og 6-1.
Því var leikur Rebekku og Söndru Dís gegn landsliðsþjálfurunum Önnu og Carolu úrslitaleikur. Sá leikur var hörkuspennandi og tók 2,5 klst. Rebekka og Sandra Dís byrjuðu betur og unnu fyrsta settið 6-3. Anna og Carola komu svo sterkar til leiks í öðru setti og unnu það 7-5. Í þriðja setti tóku Rebekka og Sandra Dís við sér aftur og unnu það 6-2. Skemmtilegur og spennandi leikur.