Reglugerð um umgjörð Íslandsmóta
1.gr.
TSÍ stendur árlega fyrir tveimur Íslandsmótum í tennis í samráði við tennisklúbba á Íslandi. Fyrra mótið skal haldið snemma að vori og skal leikið innanhúss og síðara mótið þar sem leikið skal utanhúss, sé þess kostur, skal haldið að sumri. Íslandsmót utanhúss er æðsta mót TSÍ hvers árs og gjarnan kallað „Íslandsmótið.“ Mótsstjóri Íslandsmóts skal vera ábyrgur fyrir framkvæmd mótsins, verðlaunaafhendingu og veislu eftir mót.
2. gr.
Keppt er í flokkum karla og kvenna. Þátttökurétt hafa þeir sem búið hafa á Íslandi síðastliðin 3 ár og eru fullgildir meðlimir í íslenskum tennisklúbbum. Dregið skal í Íslandsmót á auglýstum tíma að viðstöddum 2 leikmönnum og einum aðila frá TSÍ eða tilnefndum aðila frá TSÍ. Dregið skal samkv. reglum ITN og notast skal við skál sem inniheldur nöfn þátttakenda. Samtímis skal ákveða hvaða tennisbolta eigi að nota í mótinu.
3. gr.
Leikið skal á löglegum og vel við höldnum völlum og skulu aðstæður skoðaðar vandlega við upphaf móts. Hæð nets skal mæld og vellir skulu vera í samræmi við reglur ITF. Séu aðstæður utanhúss þess eðlis vegna rigningar eða roks að þær hafi veruleg áhrif á leik eða séu beinlínis hættulegar leikmönnum, skal leik annað hvort frestað eða hann færður inn í tennishöll. Sú ákvörðun skal tekin af mótsstjóra og meðlimi TSÍ, sé hann viðstaddur, en tillit tekið til álits keppenda.
4. gr.
Keppendur skulu mæta til leiks á auglýstum tíma. Mæti keppandi meira en 15 mínútum of seint telst leikurinn tapaður. Karlar eiga rétt á því að yfirgefa völlinn í eitt skipti á meðan leik stendur og konur tvisvar til þess að ná í vatn, skipta um föt og þess háttar. Í tvíliða- og tvenndarleik má hvort lið yfirgefa völlinn tvisvar. Keppendur hafa rétt á að biðja mótsstjóra um dómara telji þeir það nauðsynlegt. Mótsstjóri skal taka tillit til þess.
5. gr.
Í meistaraflokkum karla og kvenna í einliða- og tvíliðaleik skulu ávallt vera leikin 2-3 sett upp í 6 lotur, nema framlenging verði. Í öðrum flokkum má gera undantekningar. Í úrslitaleikjum Íslandsmóts í meistaraflokkum skal leikið til þrautar þannig að komi til 3. setts skal leikið þar til annar aðilinn hefur unnið tveimur lotum fleiri en hinn. Til þess að keppni fari fram þurfa að vera a.m.k. 2 keppendur í hverjum flokki og keppt er um 3. sæti ef keppendur eru 3 eða fleiri.
6. gr.
Keppendur á Íslandsmótum skulu ávallt vera vel til hafðir og getur mótsstjóri krafist þess að að menn bæti klæðnað sinn sýnist honum svo, ella sé leikur tapaður. TSÍ áskilur sér rétt til þess að gerðar verði prufur á keppendum hvenær sem er til að kanna hvort þeir hafi neitt ólöglegra lyfja. Komi til agabrota keppenda skal farið eftir reglum ÍSÍ við úrlausn mála.
7. gr.
Í úrslitaleikjum og undanúrslitaleikjum karla og kvenna skal ávallt vera stóladómari til staðar. Einnig skulu í úrslitaleikjum vera a.m.k. tveir línudómarar og einn boltasækjari. Leikið skal með nýjum boltum sem valdir eru fyrir leik. Komi til úrslitasetts í úrslitum karla og kvenna skal skipta um bolta.
8. gr.
Verðlaunum á Íslandsmótum skal ávallt stillt í hóf. Þó skulu veittir tveir veglegir bikarar og farandbikarar í meistaraflokkum karla og kvenna. Leitast skal við að hafa einnig verðlaun sem keppendur geta haft gagn og gaman af eins og inneignir í íþróttaverslunum verði því við komið.
9. gr.
Fjölmiðlafulltrúi TSÍ er ábyrgur fyrir því að kynningar á Íslandsmót séu fullnægjandi. Hann skal hafa samband við alla helstu fjölmiðla og bjóða þeim að koma og gera úrslitaleikjum karla og kvenna skil. Hann skal einnig skrifa umsögn að móti loknu eftir því sem við á. Þá skal hann í samráði við meðlimi TSÍ reyna að fá styrktaraðila fyrir Íslandsmót. Að öðru leyti er mótsstjóri Íslandsmóts ábyrgur fyrir því að mót fari vel fram.
10. gr.
Stjórnarmenn TSÍ, tennisþjálfarar, mótsstjóri og aðrir sem koma að Íslandsmótum skulu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gera Íslandsmót í tennis sæmandi glæsilegri íþrótt. Mælst er til þess að þessir aðilar mæti á úrslitaleiki í meistaraflokki karla og kvenna og stuðli að því að áhorfendur á úrslitaleikjum og öðrum leikjum séu sem flestir. Mælst er einnig til að tennisþjálfarar leggi áherslu á að þeirra lærisveinar og lærimeyjar horfi á úrslitaleiki. Einnig er upplagt að hafa happdrætti eða annað hvetjandi til þess að krakkarnir mæti. Mótsstjóri ber ábyrgð á því að umgjörð úrslitaleikja sé ásættanleg, þar með talin áhorfendaaðstaða, aðstaða fyrir fjölmiðla o.þ.h.
11. gr.
Stuðlað skal að því að úrslitalleikir í meistaraflokki karla og kvenna séu síðustu leikir Íslandsmóta hverju sinni. Þar næst fer fram verðlaunaafhending og veisla. Að lokum slítur formaður TSÍ formlega Íslandsmóti.
Reykjavík 20. júlí 2013